Select Page

Skurðakort LbhÍ

Landbúnaðarháskólinn og Landmælingar Íslands gerðu uppdrátt af skurðum landsins á árunum 2007 til 2009. Gerð var úttekt á þeirri hnitun með vettvangsheimsóknum. Úttektin leiddi í ljós að um 5 % skurða vantaði og í 20 % tilfella voru dregnir inn skurðir þar sem enginn var skurðurinn. Síðan eldri uppdráttur var gerður hafa bæði orðið breytingar á skurðakerfinu og betri gögn eru aðgengileg. Breytingar á skurðakerfinu og þar með á flatarmáli framræsts lands eru mikilvægar varðandi mat á losun gróðurhúsalofttegunda frá landi og öllum skuldbindingu þar að lútandi.

Árið 2018 var hafist handa við gerð nýs skurðakorts. Markmið með kortlagningunni var bæði að fá réttari mynd af skurðum landsins og fá upplýsingar um hvað hefur bæst við og horfið af skurðum síðustu frá fyrri hnitun.

Grunnmyndir

Nýja skurðakortið var dregið upp eftir loftmyndum fyrirtækisins Loftmynda ehf. Myndirnar eru misgamlar. Af sumum svæðum eru til ársgamlar myndir en á öðrum svæðum eru myndirnar kannski 10 ára eða rúmlega það. Jafnframt var gerður samningur við Loftmyndir um aðgang að myndasafninu þeirra eins og það var árið 2009. Til viðbótar fyrrnefndum loftmyndum voru notaðar gervitunglamyndir í gegnum þjónustu ESRI, eru allar myndir minna en 3 ára og í mörgum tilfellum hvað bestar til að skera úr um hvort um skurð sé að ræða eða eitthvert annað línulegt fyrir bæri.

Sá galli er á ESRI myndunum að það er skekkja í staðsetningu. Það þýðir að ef teiknaður er inn skurður eftir ESRI mynd og hann svo lagður á rétt hnitsetta loftmynd þá er skurðurinn ekki rétt staðsettur. Þessi skekkja er sýnilega á vefsjánni sem hér er, því þar eru gervitunglamyndir (Maxar) ESRI myndir í bakgrunni. Við skurðauppdráttinn var einnig stuðst við ýmsar aðrar myndir t.d. Spot og Sentinel gervitunglamyndir og í raun leitað í öllum tiltækum gögnum þegar vafi var fyrir hendi. Til viðbótar- og gervitunglamyndum var gamli skurðauppdrátturinn einnig hafður til hliðsjónar.

Aðferð við skurðauppdrátt

Skurðakortið var unnið í ArcMap hugbúnaðinum. Þar getur maður kveikt og slökkt á hinum ýmsu grunnmyndum. Dæmi, ef vafi lék á hvort lína á myndinni væri skurður eða eitthvað annað, s.s. slóði eða girðing var hægt athuga hvort fyrirbærið sæist betur á annari mynd.

Útbúið var reitakerfi með 500 x 500 m reitum, til að halda utan um framgang vinnunnar. Þegar allir skurðir í hverjum reit höfðu verið hnitaðir inn var reiturinn skyggður (Mynd 1).

Mynd 1. Reitaskipulag í hnituninni. Allir skurðir innan hvers reits voru hnitaðir og reiturin skyggður. Skurðir sem voru inan reits varu hnitaðir alla leið og ná því oft inn á aðra reiti sem ekki er búið að klara. Uppdrætti er lokið í reitum sem skyggðir hafa verið með bláum lit

Nýjir skurðir

Jafnframt hnitun skurðanna var alltaf litið á loftmyndasafnið frá 2009 og gömlu skurðateikninguna til að ganga úr skuggum um hvort einhverjir skurðir hefðu bæst við eða horfið á tímabilinu. Einnig var kíkt á ESRI myndirnar því þær eru nýrri en flestar myndir Loftmynda ehf. Ef skurðir höfðu bæst við voru þeir teiknaðir inn og merktir sem nýir skurðir (sjá mynd 2).

Mynd 2. Loftmynd frá 2009

Mynd 3. Maxar gervitunglamynd frá 2019. Viðbót skurða

Mynd 4. Hér hafa nýju skurðirnir verið hnitaðir inn og auðkenndir með bláum lit eldri skurðir eru merktir gulir

Myndir 2 – 4 sýna sama svæði. Á mynd 2 frá árinu 2009 eru engir skurðir á svæðinu sem er fyrir miðri mynd. Á mynd 3 eru komnir skurðir og á mynd 4 er búið að teikna inn skurðina á svæðinu og auðkenna nýja skurði með bláum lit.

Óvissir skurðir

Ef ekki tókst að skera úr um hvort um skurð var að ræða eða ekki var teiknuð inn lína og hún merkt sem óviss. Sumarið 2019 var farið í vettvangsferðir til skera úr óvissu skurða. Unnið verður áfram sumarið 2020 við að leysa úr þeim óvissu atriðum sem eftir standa. Dæmi um óvissu atriði má sjá á myndunum hér að neðan. Rauða línan er dregin inn sem óviss skurður. Við athugun síðastliðið sumar kom í ljós að þarna var enginn skurður, en þarna var girðing og mismunandi landnýting sitt hvoru megin, sem býr til skörp skil í myndinni.

Mynd 5. Rauða línan er dregin inn sem óviss skurður. Við athugun kom í ljós að þarna var enginn skurður en það var girðing.

Mynd 6. Óviss skurður

Breytingar á skurðakerfi

Sumstaðar hafði verið fyllt í skurði frá því að fyrri kortlagning var gerð. Horfnir skurðir voru ekki hnitaðir inn á sama kort (Þeir eru jú horfnir) en þeir voru dregnir inn í sérstaka kortaþekju sem unnt er að bera saman við skurðakortið.

Sé uppdrátturinn með horfnum skurðum borin saman við skurðakortið má víða sjá að þar sem eru horfnir skurðir þar eru víða líka nýjir skurðir. Hluti nýrra skurða er því vegna endurskipulagningar skurðakerfisins.

Mynd 7. Svæði þar sem skurðakerfið hefur verið endurskipulagt

Mynd 8. Svæði með bæði nýjum og horfnum skurðum. Umfang framræsts lands hefur breyst lítið sem ekkert.

Mynd 9. Svæði með bæði nýjum og horfnum skurðum. Sama og mynd 8, hér hafa verið dregnar inn línur, gul táknun merkir fyrir skuðri til staðar, blár litur auðkennir nýja skurði og bleikur merkir fyrir horfnum skurðum.

Endurheimt votlendi

Skurðir sem fyllt hefur verið í, í þeim tilgangi að endurheimt votlendi eru í uppdrættinum horfinn skurður. Hér er dæmi um eitt slíkt. Þetta svæði er í Norðfirði. Fyrri myndin er frá 2008 en seinni myndinn er frá árinu 2019. Enn sést móta fyrir skurðunum sem fyllt hefur verið í.

Mynd 10. Mynd frá árinu 2008, skurðir til staðar.

Mynd 11. Mynd frá árinu 2019, fyllt hefur verið í skurði (skurður horfinn)

Skurðakort

Kortlagning í vinnslu.

Þar til yfirferð vafaatriða er lokið verður að skoða niðurstöðurnar sem birtast í vefsjánni sem verk í vinnslu. Engu að síður var ákveðið að gera kortið aðgengilegt til skoðunar, þeim sem áhuga hafa á.

 

 

You have Successfully Subscribed!